„Við erum virkilega ánægð með viðtökurnar," segir Ragnheiður Haraldsdóttir, forstjóri Krabbameinsfélags Íslands, í tilkynningu. Markmið Krabbameinsfélagsins er að safna 30 milljónum króna í átakinu Mottumars. Nú þegar hafa rúmar þrjár milljónir safnast. Í tilkynningu skorar hún á einstaklinga og fyrirtæki að taka þátt og styrkja átakið.

Á fimm dögum hafa rúmlega 30 þúsund manns séð auglýsingu fyrir Mottumars á YouTube og margir deilt henni. Þá hafa 33 þúsund heimsótt vefinn Mottumars.is .

Fram kemur í tilkynningu frá Krabbameinsfélaginu að í tengslum við auglýsinguna var ferðast í kringum landið. Um 250 karlmenn taka þátt í auglýsingunni og syngja lagið lagið „Hraustir menn”. Þar á meðal voru karlmenn sem höfðu ekki rakað sig í 40 ár. Þeir létu skeggið fjúka til að skarta mottu í auglýsingunni.