Fasteignaverð í Rúmeníu hefur verið á hraðri uppleið undanfarin ár. Þannig jókst meðalverð fasteigna úr 8% í 10% á árinu 2006 samkvæmt úttekt Global Property Guide (GPG). Í sumum borgarhlutum Búkarest hækkaði verðið mun meira og var ávöxtun fasteignafjárfestinga þar með því hæsta sem gerist í Evrópu.

Segir GPG að fasteignaverð haldi áfram að hækka í Rúmeníu, en það endurspegli pólitískan stöðugleika í landinu, mikinn hagvöxt, aukna eftirspurn eftir húsnæði og inngöngu landsins í Evrópusambandið þann 1. janúar 2007. Rúmenar vonast til að geta tekið upp evru árið 2014. Rúmenar gengu í NATO árið 2004.

Ásókn útlendinga eftir fasteignum í Rúmeníu hefur að mati GPG haft gríðarleg áhrif til hækkunar fasteignaverðs í landinu. Er Rúmenía nú komið upp að hlið Búlgaríu hvað eftirsókn breskra og annarra útlendinga varðar, en bæði löndin eiga miklar baðstrendur við Svartahafsströndina. Megin strendurnar í Rúmeníu eru á ríflega 72 kílómetra löngu svæði milli Magnalia og Mamaia. Á þessari leið er að finna fjölda hótela og ferðamannastaða. Þarna má líka víða finna minjar grískrar menningar allt frá því á sjöundu öld fyrir Krist.

Það eru engar hömlur á kaupum útlendinga á húsum og íbúðum i Rúmeníu, en útlendingum er þó óheimilt að eignast þar land. Hefur þeim takmörkunum enn ekki verið aflétt þrátt fyrir aðild Rúmeníu að Evrópusambandinu. Væntanlega myndi það ekki vefjast lengi fyrir Íslendingum. Þannig mætti án efa stofna fyrirtæki í Rúmeníu sem leppað væri af rúmenskri eignaraðild ef menn ætluðu sér virkilega að komast yfir landareign. Athygli vekur að afkoma í húsaleigu í Búkarest er best í stóru húsnæði, 250 fermetra og stærri. Þar er afkoman 6,25%, en í venjulegum íbúðum upp á 120 fermetra er afkoman 5,54%. Fasteignaskattar af borgarhúsnæði eru 0,2% af fasteignamati en 0,1% af húsnæði í dreifbýlinu.

Heildarkostnaður við fasteignakaup í Rúmeníu er sagður nema um 7% til 12% af fasteignaverði. Stærsti hlutinn af því er allt að 6% gjald sem fasteignasölurnar taka og stimpilgjöld eru allt að 3%. Rúmenía er á norðanverðum Balkanskaga og er ríflega tvöfalt stærri en Ísland, eða 237.500 ferkílómetrar (CIA The World Factbook). Íbúafjöldinn er þó talsvert meira en tvöfaldur, því nærri 72 sinnum fleiri íbúar eru í Rúmeníu en á Íslandi. Eru íbúar þar 22.246.862 samkvæmt áætluðum tölum fyrir júlí 2008. Er það 0,1% fækkun frá fyrra ári, en Rúmenum hafði þó fjölgað talsvert árin á undan því þeir voru 21.680.974 árið 2002.

Rúmenar tala í raun mörg tungumál fyrir utan rúmensku og eru ungverska, þýska, króatíska, úkraínska og serbneska líka töluð á vissum svæðum þessara þjóðarbrota í Rúmeníu.

Blóði drifin saga

Rúmenar hafa marga hildi háð og eiga blóðuga sögu styrjalda og kúgunar. Þeir losuðu sig þó loks við hinn gjörspillta harðstjóra Nocolae Ceausescu árið 1989 og markaði það algjör tímamót fyrir landið. Nefna má líka sjálfstæðisstríðið 1877 sem háð var gegn Ottoman keisaradæminu. Þann 16. apríl það ár gerðu Rúmenar samning við Rússa um að þeir síðarnefndu fengju að fara um landið með sínar hersveitir, en átta dögum síðar lýstu Rússar yfir stríði við Ottoman veldið. Rúmenar misstu 10.000 menn í stríðinu fyrir sjálfstæði sínu þar sem hersveitir þeirra börðust við hlið rússneskra hersveita gegn Ottoman veldinu. Má segja að lengst af síðan hafi Rússar haft sterk ítök í Rúmeníu. Mihail Kogalniceanu forsætisráðaherra og lögfræðingur lýsti svo yfir sjálfstæði Rúmeníu á rúmenska þinginu þann 21. maí árið 1877. Rússar samþykktu svo á friðarfundi sem haldin var í Berlín 1878 að viðurkenna sjálfstæði Rúmeníu. Þeir hersátu þó áfram héruð í Bessarabia í norðaustanverðu landinu. Sjálfstæðisyfirlýsingin var síðan loks viðurkennd af Ottoman veldinu þann 13. júlí 1878.