Rúmfatalagerinn opnaði í gær nýja verslun í Edmonton í Kanada og eru verslanir félagsins í Kanada þar með orðnar 20 talsins - en félagið opnaði alls átta verslanir þar síðasta árið. Jákub Jacobsen, stofnandi Rúmfatalagersins og aðaleigandi, sagði í gær á kaupstefnunni Rekstur 2004, að reksturinn í Kanada væri nú kominn á fullt skrið og væri farin að skila góðum hagnaði. Hann þakkar góðu starfsfólki árangurinn í Kanada en Lúðvík Kristinsson stýrir starfseminni þar í landi.

Rúmfatalagerinn hefur einnig staðið í útrás í Eystrasaltslöndunum og rekur nú þar 13 verslanir í Eistlandi Lettlandi og Litháen. Starfseminni þar stýrir Nils Stórá en Jákub segir að þar njóti þeir þess að hafa mjög gott starfsfólk og starfsmannavelta sé nánast engin. Á Íslandi eru verslanirnar 4, ein er í Færeyjum og því mynda alls 38 verslanir Rúmfatalagerskeðjuna í sex löndum. Á teikniborðinu er að opna til viðbótar 12 verslanir á næsta ári, 8 í Kanada og 4 í Eystrasaltslöndunum.

Á aðeins fimmtán árum hefur Jakúp Jacobsen og viðskiptafélaga hans, Jákup N. Purkhús, tekist að byggja upp arðbæra verslunarkeðju sem starfar í fjölda landa, beggja vegna Atlantsála. Jákup ræddi við blaðamann Viðskiptablaðsins á Rekstri 2004 í gær en Jákup þakkar það ákveðinni framsýni ásamt heppni hversu vel hafi gengið - hann hafi náð að vera á réttum stað á réttum tíma og starfsfólki Rúmfatalagersins hafi einnig tekist að lesa markaðinn vel og bjóða honum upp á það sem hann vilji hverju sinni. Jákup viðurkenndi að hann hefði leiðst út í verslunarrekstur fyrir tilviljun 25 ára gamall, en þá hafði hann stundað sjómennsku í 10 ár. Það hafði gengið illa undir það síðasta og Jákup hafði sett allan sinn pening í tvo togara sem skiluðu honum engu.

Ákveðin tímamót urðu þegar Jákup fór ásamt föður sínum til Danmerkur til að kaupa sumarhúsgögn fyrir sumarbústað föður hans í IKEA, en á leiðinni til baka leit hann inn í danska "Rúmfatalagersverslun" og þegar þeir feðgar eru að spjalla saman vindur sér að þeim maður og spyr þá hvort þeir séu frá Finnlandi. "Nei við erum frá Færeyjum," svaraði Jákup og þá lifnaði yfir manninum. Færeyingur nokkur hafði ætlað sér að opna verslun í Færeyjum og hafði pantað átta gáma af vörum en hætt svo við og vörurnar biðu á hafnarbakkanum í Þórshöfn. "Þá hugsaði ég strax, þetta gæti verið eitthvað fyrir mig," segir Jákúp sem dreif sig í að opna eigin verslun og segir að það hafi gengið vel frá byrjun, þó svo að hann hafi orðið í fyrstu fyrir háðsglósum frá félögum sínum á sjónum - þeim þótti það ekki við hæfi karlmanns að selja gardínur, sængur og rúmföt. Viðhorf þeirra breyttist hins vegar fljótt.