*

laugardagur, 29. janúar 2022
Innlent 30. apríl 2021 10:05

Rúmfatalagerinn opnar í Reykjanesbæ

Rúmfatalagerinn vinnur einnig að flutningi á verslun sinni á Akureyri, frá Glerártorgi í Norðurtorg.

Ritstjórn
Verslun Rúmfatalagersins í Skeifunni
Aðsend mynd

Rúmfatalagerinn opnar nýja verslun seinni hluta maímánaðar að Fitjum í Reykjanes. Nýja verslunin er í húsnæði sem áður hýsti Hagkaup og deilir inngangi með Bónus.  

Þetta verður sjöunda verslun Rúmfatalagersins, sem rekur fyrir verslanir á Smáratorgi, Skeifunni, Granda, Bíldshöfða, Selfossi og Akureyri. Verslunin að Fitjum verður sú fyrsta á Íslandi sem byggir á nýju útliti frá JYSK, en þar er notast við ný hillukerfi og uppstillingar.

„Við erum afskaplega ánægð að geta boðið íbúum Reykjanesbæjar í heimsókn til okkar í nýtt og skemmtilegt verslunarumhverfi.  Verslunin er hönnuð með þægindi og notagildi fyrir viðskiptavini í huga og það gleður okkur að verslunin að Fitjum sé sú fyrsta í þessu nýja útliti. Þá bjóðum við nýtt starfsfólk Rúmfatalagersins velkomið til starfa,“ segir Björn Ingi Vilhjálmsson, framkvæmdastjóri Rúmfatalagersins, í fréttatilkynningu.

Þá vinnur Rúmfatalagerinn nú að flutningi á verslun sinni á Akureyri, frá Glerártorgi í Norðurtorg að Austursíðu 2. Verslun ILVA verður einnig í sama húsnæði.