© BIG (VB MYND/BIG)
Fjármagnstekjur lækka nú þriðja árið í röð og meira en áður eða um tæpa 73 milljarða. Fjármagnstekjur voru 244,2 milljarðar við álagningu árið 2008 en eru nú tæpir 66,3 milljarðar. Söluhagnaður og arðgreiðslur hækkuðu mikið framan af síðasta áratug en undanfarið hefur dregið mikið úr söluhagnaði sem er nú um 7,1 milljarður. Söluhagnaður lækkar um 46,1% frá því í fyrra. Arðgreiðslur eru nú 12,1 milljarður, eða 70,5% minni en fyrir ári af því er fram kemur í tilkynningu ríkisskattstjóra. Þá vekur það athygli að vaxtatekjur af innstæðum í íslenskum bönkum lækka um 39 milljarða, eða 58,4%. Vextir af verðbréfum hækka hins vegar um 17,9%, eða tæpa 1,9 milljarða. Vextir af verðbréfum eru öðrum þræði innleystur söluhagnaður og því gætir hér áhrifa breyttra markaðsaðstæðna, gengis og verðlags. Þá hafa innstæður minnkað en verðbréfaeign aukist.

Fjármagnstekjuskattur

Mikil breyting var á álagningu f jármagnstekjuskatts frá fyrra ári. Skatthlutfall var hækkað og nam 18% en með 100.000 kr frítekjumarki vaxtatekna. Álagður fjármagnstekjuskattur einstaklinga nemur 10,1 milljarði króna og lækkar um 35,5% milli ára. Mikil fækkun er á þeim sem greiða skattinn, einkum vegna frítekjumarksins og eru þeir nú tæplega 47 þúsund en voru 183 þúsund árið áður þegar greiddur var skattur af öllum vaxtatekjum. Vextir eru enn stærsti einstaki liður fjármagnstekna þótt vaxtatekjur hafi dregist saman um nær helming frá árinu 2009. Samdrátturinn varð hlutfallslega mestur í arðs­tekjum en þær voru einungis 30% af því sem þær höfðu verið árið áður. Söluhagnaður dregst saman um helming en eini liður fjármagnstekna sem vex eru leigutekjur. Fram­taldar fjármagns­tekjur námu samtals 66,3 milljörðum.