Yfir 100 endurskoðendur, lögfræðingar og aðrir sérfræðingar unnu við skuldauppgjör Björgólfs Thors Björgólfssonar við sjö kröfuhafa árið 2010. Pappírshrúga af samningum tók heilan sal og tvö herbergi. Um 40 lögfræðilærlingar sáu svo um að mata menn með pappírum til að skrifa undir.

Þetta kemur fram í úttekt í Viðskiptablaðinu um skuldauppgjör Björgólfs sem fram fór samhliða fjárhagslegri endurskipulagningu Actavis. Þar kemur m.a. fram að þegar kom að því að ljúka við samninga og skrifa undir voru lýsingarnar skrautlegar.

„Síðustu tvær vikurnar áður en við lokuðum þessu um sumarið þá fórum við ekkert heim til okkar. Við gistum bara hérna og fólk lá bara eins og hráviði út um gólf og var sofandi upp við veggi,“ segir Birgir Már Ragnarsson lögmaður, starfsmaður Novator og einn helsti samstarfsmaður Björgólfs Thors þegar hann lýsir stemningunni.

Ítarlega er fjallað um skuldauppgjör Björgólfs í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.