Nú eru 17.974 einstaklingar skráðir atvinnulausir hér á landi samkvæmt vef Vinnumálastofnunar en sem kunnugt er hefur atvinnuleysi aukist nokkuð hratt frá áramótum þó aðeins hafi hægt á því nú.

Fram kom í tilkynningu frá Vinnumálastofnun í byrjun apríl að helstu ástæður uppsagna eru rekstrarerfiðleikar, verkefnaskortur og endurskipulagning.

Hópuppsögnum hefur þó fækkað en stærstu hópuppsagnir síðustu tveggja mánaða komu til eftir yfirtöku ríkisins á SPRON og Straum. Flestir misstu vinnuna í byrjun febrúar eða um 1.100 manns. Þá höfðu um 1.000 manns misst vinnuna í byrjun janúar, um 500 manns í byrjun mars, um 200 manns í byrjun apríl og samkvæmt vef Vinnumálastofnunar missa rúmlega 100 manns vinnuna nú um mánaðarmótin.

Atvinnuleysi mældist 8,9% að meðaltali í mars en gróflega má áætla að atvinnuleysi sé nú um 10%.

Atvinnuleysi mælist sem fyrr, þ.e. miðað við síðustu mánuði, mest á höfuðborgarsvæðinu þar sem 12.211 eru skráðir atvinnulausir eða 68% allra þeirra sem skráðir eru atvinnulausir. Þannig hefur það verið frá áramótum, þ.e. á milli 66% - 69% allra atvinnulausra eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu.

Þar á eftir eru 1.922 einstaklingar skráðir atvinnulausir á Suðurnesjum eða 10,7% þeirra sem skráðir eru atvinnulausir.

Þar minnkar atvinnuleysi hlutfallslega lítið miðað við aðra landshluta en mest hefur það hlutfallslega minnkað á norðurlandi eystra þar sem 1.526 einstaklingar eru skráðir atvinnulausir eða 8,5%. Fyrir um mánuði síðan voru 9,5% allra þeirra sem skráðir voru atvinnulausir á norðurlandi eystra en þeim hefur nú fækkað um rúmlega 100 manns.

Minnsta atvinnuleysið mælist á Vestfjörðum þar sem 126 eru skráðir atvinnulausir eða 0,7% þeirra sem skráðir eru atvinnulausir á landinu.