Mikill áhugi var fyrir sumarstörfum hjá hugbúnaðarfyrirtækinu TM Software en rúmlega hundrað umsóknir bárust í TM Software Labs fyrir tölvunarfræðinema. Aðeins níu nemendur fengu vinnu fram í lok ágúst.

Fram kemur í tilkynningu frá TM Software að markmiðið með TM Software Labs felst í nýsköpun og vöruþróun með námsfólki í tölvunarfræði og öðrum tæknigreinum. Sumarstarfsfólkið fær tækifæri til þess að vinna að spennandi verkefnum á sviði vef- og sérlausna undir stjórn reyndra sérfræðinga TM Software og nýta til þess nýjustu lausnir og þróunartól. Um leið hýtur það þjálfun í Agile/Scrum aðferðafræðinni.

Haft er eftir Ágústi Einarssyni, forstjóra TM Software, að stefnan sé að ráða áhugasama og metnaðarfulla einstaklinga sem eru komnir langt í námi. Með störfum hjá TM Software geti þeir aflað sér góðrar reynslu og nýtt hæfileika sína til fullnustu.

„Miðað við vöxt TM Software undanfarið og núverandi áherslur er ljóst að félagið þarf að bæta við töluvert af nýjum starfsmönnum á næstu misserum,“ segir Ágúst Einarsson.