Alls fóru 115.279 erlendir ferðamenn frá landinu í ágúst síðastliðnum eða um 13.400 fleiri en í sama mánuði árið 2011.

Á vef Ferðamálastofu kemur fram að ferðamönnum hefur fjölgað alla mánuði ársins 2012. Fjölgunin í ágúst nam 13,2% á milli ár og er svipuð og aðra mánuði í sumar. Í júní fjölgaði ferðamönnum um 13,3% og í júlí fjölgaði þeim um 14,7%.

Af einstaka þjóðernum voru flestir ferðamenn í ágúst frá Þýskalandi (14,4%), Bandaríkjunum (13,7%) og Frakklandi (10,6%). Ferðamenn frá Bretlandi (6,8%), Danmörku (5,3%), Noregi (5,2%), Ítalíu (4,9%), Spáni (4,8%) og Svíþjóð (4,3%) fylgdu þar á eftir. Af einstaka þjóðum fjölgaði Þjóðverjum, Bandaríkjamönnum, Frökkum og Kínverjum mest í ágúst milli ára.

Þá kemur fram að það sem af er ári hafa 472.285 erlendir ferðamenn farið frá landinu eða 65.801 fleiri en á sama tímabili í fyrra. Hér er því um að ræða 16,2% aukningu á milli ára.