Fram kemur í skoðanakönnun sem Capacent Gallup hefur unnið fyrir Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) að tæplega þriðji hver aðspurðra (29,5%) hafði vitneskju um einhvern sem hafði framið vátryggingasvik. Ef aðeins var horft til síðustu 12 mánaða könnuðust 14,2% við einhvern sem hafði fengið tryggingabætur sem hann átti ekki rétt á. Nýlunda er í þessum árlegu könnunum að spurt sé um síðastliðna 12 mánuði. 96,4% aðspurðra telja vátryggingasvik alvarlegt athæfi. Capacent-Gallup framkvæmdi netkönnun 5.-19. maí síðastliðinn til að kanna viðhorf fólks á aldrinum 16 ára og eldri til vátryggingasvika.

Úrtakið var 1380 manns og var svarhlutfall 57,2%. Þátttakendur voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Capacent Gallup. Þetta er þriðja árið sem sambærileg könnun er unnin fyrir SFF. Nú segjast 96,4% sammála því að vátryggingasvik séu alvarleg brot miðað við 95,7% árið 2010 og 87,1% árið 2009. Viðhorf til vátryggingasvika virðast vera háð aldri en könnunin gefur til kynna að elsti aldurshópurinn líti vátryggingasvik mun alvarlegri augum en yngstu aldurshóparnir. Árið 2010 námu bótagreiðslur íslenskra vátryggingafélaga tæpum 30 milljörðum króna.

Sé miðað við áætlaða tíðni vátryggingasvika í nágrannalöndunum má gera ráð fyrir að um 10% greiddra tryggingabóta séu vegna vátryggingasvika. SFF hafa ekki vitneskju um fjölda svika hér á landi en ef tíðnin er sambærileg við það sem gerist í nágrannalöndum má gera ráð fyrir að vátryggingasvik nemi ekki undir 3 milljörðum króna á hverju ári, hér á landi. Þegar horft er til þess að 14,2% aðspurðra í könnuninni vita um vátryggingasvik síðastliðna 12 mánuði, rennir það enn styrkari stoðum undir að tíðni vátryggingasvika hér á landi sé í sambærilegu hlutfalli við það sem gerist í nágrannalöndum.

SFF stóðu fyrir ráðstefnu um vátryggingasvik í síðustu viku þar sem norskir sérfræðingar á sviði vátryggingamála fóru yfir ástandið í Noregi. Þar kom fram að 802 svikamál voru upplýst þar í landi árið 2010. Norsk tryggingafélög hafa á síðustu árum í vaxandi mæli ráðið til sín fyrrverandi lögreglumenn til að rannsaka mál þar sem grunur er um vátryggingasvik. Í Noregi er virkt samstarf milli vátryggingamarkaðar, tryggingastofnunar og lögreglunnar um að sporna gegn vátrygginga- og bótasvikum. Athygli vekur að í könnun Capacent var spurt; hversu sammála eða ósammála fólk væri fullyrðingu um að í lagi sé að hagræða sannleikanum til að fá greiddar bætur frá tryggingafélagi. 84,9% segjast ósammála en 7,9% eru sammála og 7,3% segja hvorki né. Þegar spurt var hvort fólk væri sammála fullyrðingunni; það er í lagi að ýkja og gera sér upp einkenni eftir slys til að fá hærri bætur, sögðust 89,5% vera ósammála en 4,9% voru sammála og 5,6% svöruðu hvorki né.