Árið hefur farið mjög vel af stað á hlutabréfamarkaðnum og þegar 29 viðskiptadagar eru liðnir hefur Úrvalsvísitalan hækkað um 15,1%. Flugleiðir hafa hækkað langmest allra félaganna í vísitölunni eða um tæp 44%. Þeir dagar sem af eru árinu hafa verið mjög viðburðarríkir í rekstri Flugleiða en félagið hefur verið að hasla sér völl á sviði flugvélaleigu auk þess sem góður hagnaður hefur verið af hlutabréfaeign félagsins í easyJet. Landsbanki og KB banki hafa báðir hækkað um yfir 20% og má m.a. rekja þá hækkun til góðra ársuppgjöra. Þá hefur Og Vodafone einnig verið að hækka töluvert upp á síðkastið eins og bent er á í Vegvísi Landsbankans.

Þars egir enn fremur að Nú hafa 8 af þeim fimmtán félögum sem mynda Úrvalsvísitöluna birt ársuppgjör sín. "Í heild hafa uppgjörin verið í takt eða yfir væntingum og er það meginástæða þessara miklu hækkana á hlutabréfaverði að okkar mati ásamt væntingum um áframhaldandi góðan rekstur. Almennt teljum við þó ekki að uppgjörin gefi tilefni til hækkunar á verðmati okkar. Um þetta hefur verið fjallað í Áliti á uppgjöri félaganna.

Eins og við vitum var síðasta ár mjög gott á innlendum hlutabréfamarkaði en hækkanir hérlendis voru mun meiri en á flestum erlendum mörkuðum. Ef við berum sama hækkun Úrvalsvísitölunnar nú og fyrir sama tímabil í fyrra sést að hækkunin á þessu ári er nokkuð meiri eða 15,1% m.v. 13,5%. Við teljum að árið í ár verði gott á hlutabréfamarkaðnum en þó ólíklegt að 60% hækkun síðasta árs endurtaki sig," segir í Vegvísi Landsbankans.