Alls höfðu 100.084 innlánsreikningar staðið óhreyfðir í 15 ár eða lengur hinn 20. mars sl. Á þeim voru samtals meira en 1,53 milljarðar kr. eða 15.290 kr. á hverjum að meðaltali. Fjöldi reikninganna og heildarupphæð kom fram í svari efnahags- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn Eyglóar Harðardóttur alþingismanns. Hún spurði einnig hvaða reglur gildi um innlánsreikninga sem standi óhreyfðir í 15 ár eða lengur. Kemur þetta fram í frétt Morgunblaðsins.

Í svarinu er vísað í lög um fyrningu kröfuréttinda þar sem segir að kröfur vegna innlána eða verðmæta sem lögð hafi verið inn hjá fjármálafyrirtæki fyrnist á 20 árum. Sama eigi við um áfallna vexti. Landsbankinn hefur ekki fyrnt gamla innlánsreikninga og eru þeir aðgengilegir eigendum, samkvæmt svari frá bankanum. Arion banki hefur ekki heldur fyrnt óhreyfða gamla innlánsreikninga.