Alls fóru fóru 64.672 erlendir ferðamenn frá landinu í september síðastliðnum eða um þrettán þúsund fleiri en í sama mánuði árið 2011. Er þetta fjórði mánuðurinn á árinu þar sem aukningin fer yfir 20% milli ára.

Þetta kemur fram á vef Ferðamálastofu. Ferðamenn í september voru 25,4% fleiri en í september árið 2011.

Það sem af er ári hafa 536.957 erlendir ferðamenn farið frá landinu eða 78.897 fleiri en á sama tímabili í fyrra en um er að ræða 17,2% aukningu milli ára. Eru ferðamenn um Keflavíkurflugvöll það sem af er ári því orðnir álíka margir og allt árið 2011.

Ferðamönnum hefur fjölgað verulega milli ára frá öllum mörkuðum. Þannig hefur Bretum fjölgað um 35,8%, N-Ameríkönum um 18,2%, Mið- og S-Evrópubúum um 12,4% og ferðamönnum sem eru flokkuð undið "Annað" um 23,2%. Norðurlandabúum hefur hins vegar fjölgað minna eða um 9,3%.

Um 32 þúsund Íslendingar fóru utan í september síðastliðnum, 4,9% fleiri en í september 2011. Frá áramótum hafa 275.217 Íslendingar farið utan, 5,8% fleiri en árinu áður.

Sjá nánar á vef Ferðamálastofu