Velta á skuldabréfamarkaði nam 17,3 milljörðum króna í gær. IFS Greining segir í Morgunpósti sínum í dag veltuna að mestu leyti viðbrögð við vaxtaákvörðuninni í gær þegar stýrivöxtum var haldið óbreyttum í 6% en opnað fyrir möguleikanum á lækkun vaxta. IFS Greining telur jafnframt að birting skýrslu KPMG og Analytica um breytingar á Íbúðalánasjóði og framtíðarskipan húsnæðismála geta hafa hækkað áhættuálag.

Ávöxtunarkrafa óverðtryggðra skuldabréfa lækkaði um 5 til 23 punkta, mest á skemmri enda vaxtaferilsins á meðan kröfur verðtryggðra bréfa hækkuðu um 4 til 19 punkta. Minnst hækkaði krafa RIKS21 eða um 4 punkta.

IFS Greining segir að einnig hafi eftirspurn eftir óverðtryggðum bréfum aukist vegna gjalddaga RB14 á föstudag í síðustu viku og HFF14 á mánudag.

„Lág verðbólga undanfarið og væntingar um lága verðbólgu næstu misserin hefur aukið eftirspurn eftir óverðtryggðum bréfum. Einnig birti Velferðarráðuneytið ráðgjafarskýrslu, s.l. þriðjudag, um framtíðarskipan húsnæðismála og gæti hún átt þátt í að hækka áhættuálag HFF á RIKS um 10 pkt. í gær sem er nú komið í 37 pkt,“ segir í Morgunpósti IFS Greiningar.