Árið 2010 fluttu 2.134 fleiri frá landinu en til þess. Það dró úr brottflutningi á árinu miðað við árið áður, þegar 4.835 fluttu úr landi umfram aðflutta. Alls fluttu 7.759 frá landinu, samanborið við 10.612 á árinu 2009. Alls fluttu 5.625 manns til Íslands árið 2010, sem er svipaður fjöldi og árið 2009 þegar 5.777 manns fluttu til landsins.

Hagstofan birtir tölur um búferlaflutninga í dag.

Íslenskir ríkisborgarar voru fleiri en erlendir í hópi brottfluttra, eða 4.340 á móti 3.419. Hins vegar voru erlendir ríkisborgarar fleiri meðal aðfluttra en íslenskir, 2.988 á móti 2.637. Alls fluttu því 1.703 íslenskir ríkisborgarar úr landi umfram brottflutta, en 431 erlendur ríkisborgari.

Flestir þeirra sem fluttu af landi brott fóru til Noregs, alls 1.539 einstaklingar, en brottfluttir til Póllands voru nokkuð færri. Til þessara landa fluttu jafnframt flestir umfram aðflutta. Til Danmerkur fluttu alls 1.145, en tveimur færri fluttu þaðan til Íslands.

Tíðasti aldur brottfluttra var 24 ár
Árið 2010 voru flestir brottfluttra á aldrinum 25–29 ára, flestir þó 24 ára af einstaka árgöngum. Fjölmennasti hópur aðfluttra var á aldrinum 20–24 ára. Tíðasti aldur aðfluttra einstaklinga var 22 ára. Þegar tekið er tillit til fjölda brottfluttra umfram aðflutta var mest fækkun vegna fólksflutninga frá landinu í aldurshópnum 30–34 ára.

Kynjahlutfall jafnast
Fram til ársins 2003 fluttust að jafnaði fleiri konur til landsins en karlar. Þessi þróun snerist við á tímabilinu frá 2004–2007. Á þeim árum fluttust til landsins 5.913 fleiri karlar en konur. Á þeim þremur árum sem síðan eru liðin hafa hins vegar 4.963 fleiri karlar en konur flutt úr landi umfram aðflutta. Árið 2010 fluttu 1.428 fleiri karlar úr landi en til landsins og 706 fleiri konur fluttu frá landinu en til þess.

Fjöldi innanlandsflutninga stendur í stað
Fjöldi innanlandsflutninga náði hámarki á árinu 2007 en þá voru skráðar í íbúaskrá Þjóðskrár 58.186 flutningstilkynningar. Árið 2008 fækkaði þeim um 8.652 og árið 2009 voru þær komnar niður í 46.926. Árið 2010 fækkaði innanlandsflutningum lítillega. Þeir voru þá 46.535.

Neikvæður flutningsjöfnuður á öllum landsvæðum
Höfuðborgarsvæðið tapaði flestum einstaklingum vegna brottflutninga umfram aðflutninga eða 594 manns. Það tap helgast aðallega af miklum flutningum frá höfuðborgarsvæðinu til útlanda en þangað fluttu 1.234 umfram aðflutta frá höfuðborgarsvæðinu. Aftur á móti fékk höfuðborgarsvæðið 640 einstaklinga umfram brottflutta í innanlandsflutningum frá öðrum landsvæðum.  Á öllum öðrum landsvæðum voru brottfluttir fleiri en aðfluttir, hvort sem litið er til innanlands- eða millilandaflutninga.