Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóri Landsbankans, segir velgengi Icesave reikninganna í Hollandi á fyrsta degi fara fram úr björtustu vonum.

„Við vorum reyndar ekki með neina opinbera tölu til að miða við sem væntingar okkar fyrir fyrsta daginn. Sjálfur var ég að vonast eftir um 2.000 fyrsta mánuðinn og um 2-300 fyrsta daginn,“ sagði Sigurjón.

„Ég hugsaði dæmið út frá hvernig okkur gekk í Bretlandi. Þar vorum við með að meðaltali 10.000 nýjra reikninga stofnaða fyrstu 10 mánuðina.Bretland er um fjórum sinnum fjölmennara land en Holland og að auki er ekki jafn mikil hefð fyrir netreikningum í Hollandi og í Bretlandi og samkeppnin er harðari í Hollandi. Ég var því persónulega að búast við um fimmtungi þess fjölda sem við sáum í Bretlandi í Hollandi þannig að gengið í dag fer fram úr mínum björtustu vonum.“

Sigurjón tók þó fram að gengi Icesave fyrsta daginn væri ekki endilega góður mælikvarði á gengi reikninganna til framtíðar. Engu að síður væri auðvitað gaman að byrja vel.