*

miðvikudagur, 4. ágúst 2021
Innlent 17. mars 2015 10:57

Rúmlega 26 þúsund ferðamenn á degi hverjum

Ekkert af stóru ríkjunum er með nálægt því jafnhátt ferðamannahlutfall og Ísland, segir Greining Íslandsbanka.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Hér á landi eru staddir rúmlega 26 þúsund ferðamenn á degi hverjum, en sem hlutfall af heildaríbúafjölda að viðbættum meðalfjölda ferðamanna er það 7,2%. Þetta kemur fram í nýju Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka.

Þar segir að þetta hlutfall hafi oft verið notað sem vísbending um það hversu stór ferðamannaþjónustan er í hinum ýmsu löndum. Er Ísland þar í sjöunda sæti á milli Mónakó og Möltu. Fyrir ofan okkur á listanum eru einungis smáríki á borð við Vatíkanið sem er efst á listanum, Andorra sem er númer tvö og Bahama eyjar sem eru númer fimm.

„Þess má geta að af stóru ríkjunum eru engin með nálægt því jafn hátt ferðamannahlutfall og Ísland. Þannig er Spánn með 2,2%, Frakkland með 2,0% og Ítalía með 1,3% svo einhver dæmi séu tekin. Af smærri ríkjum má nefna Eistland með 4,0%, Austurríki með 3,8%, Írland með 3,7% og Danmörk með 2,5%,“ segir í umfjölluninni.

Er þess getið að þarna sé um meðaltalstölu fyrir árið sé að ræða en vegna mikillar árstíðarsveiflu í fjölda ferðamanna sé hlutfallið mun hærra yfir sumarmánuðina. Þannig áætlar greiningardeildin að í sumar verði ferðmenn að meðaltali ríflega 16% þeirra sem eru hér á landi.