Samkvæmt áhættumati Creditinfo á Íslandi eru ríflega 5.200 fyrirtæki í tveim mestu áhættuflokkunum og geta komist í þrot ef ekki rætist úr ástandinu. Rúmlega 4.700 fyrirtæki á Íslandi eru þegar á vanskilaskrá í dag samkvæmt upplýsingum fyrirtækisins.

Ómar Berg Torfason, greiningasérfræðingur hjá Creditinfo á Íslandi, segir ljóst að einhver þessara 5.300 fyrirtækja séu á brún hengiflugsins í tveim efstu áhættuflokkunum. Til að þau geti komist haf þurfi að koma til einhverjar aðgerðir sem laga skuldastöðu og rekstrarumhverfi fyrirtækjanna.

Hann segir misjafn eftir fyrirtækjum hvernig þau eru stödd. Samkvæmt mati Creditinfo eru 2.000 fyrirtæki í áhættuflokki 10. Meðallíkur á að þau fari í þrot eru 40%, eða um 800 fyrirtæki. Í flokki 9 eru rúmlega 3.200 fyrirtæki og meðallíkurnar á að þau fari í þrot eru 22%, eða um 715 fyrirtæki.

Miðað við þetta má ætla að við óbreytt ástand versni staðan hjá þessum fyrirtækjum hröðum skrefum og þar með líkurnar á gjaldþroti.

Til júníloka áætlar Creditinfo að 951 fyrirtæki hafi komist í greiðsluþrot, en þegar er fyrirliggjandi staðfestar tölur um 826 fyrirtæki. Af þeim hafa 386 þegar orðið gjaldþrota en sú tala á trúlega eftir að hækka í 501 fyrirtæki.

Creditinfo spáði því í ársbyrjun að 3.500 fyrirtæki myndu komast í þrot á einu ári. „Við stöndum enn við þá spá,” segir Ómar. “Það er ekkert tilefni til að breyta þeirri spá þar sem ekkert hefur í raun breyst til batnaðar í efnahagslífinu.”