71,4% af bókatitla sem getið er í Bókatíðindum Félags íslenskra bókaútgefenda 2010 eru prentaðir á Íslandi. Það er 8 prósentustigum minna en í fyrra. Þá mældist innlend prentun bóka sú mesta frá því að mælingar hófust árið 1998.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Bókasambandi Íslands. Heildarfjöldi bókatitla í Bókatíðindum í ár er 710. Titlarnir voru 673 í fyrra og 710 árið 2008.

Þegar bornir eru saman bókatitlar eftir tegund eru niðurstöðurnar:

  • Fræðibækur, bækur almenns efnis og listir eru alls 198; 148 (75%) eru prentaðar á Íslandi og 50 (25%) prentaðar erlendis.
  • Skáldverk, íslensk og þýdd, eru 186; 175 (94%) prentuð á Íslandi og 11 (6%) prentuð erlendis.
  • Saga, ættfræði, ævisögur, handbækur, matur og drykkur eru alls 123; 100 (81%) prentaðar á Íslandi og 23 (19%) prentaðar erlendis.
  • Barnabækur, íslenskar og þýddar, eru alls 203; 84 (41%) prentaðar á Íslandi og 119 (59%) prentaðar erlendis.

Alls eru 507 titlar prentaðir hér á landi, eða 71,4% af heild. 130 (18,3%) eru prentaðir í Asíu og 73 (10,3%) í Evrópu.