Á síðasta ári fjölgaði umsóknum um bætur vegna sjúklingatryggingar um 71% frá árinu 2003, að því er Tryggingastofnun ríkisins greinir frá. Alls bárust TR áttatíu og fjórar umsóknir árið 2004 en 49 umsóknir árið 2003. Sjálfstæð lög um sjúklingatryggingu tóku gildi 1. janúar 2001 og samkvæmt þeim eru þeir sjúklingar tryggðir sem verða fyrir líkamlegu eða geðrænu tjóni í tengslum við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð.

Að sögn Unu Bjarkar Ómarsdóttur deildarstjóra hjá TR er sjúklingatryggingin þess eðlis að fá mál bárust fyrst eftir gildistöku laganna en umsóknum hefur fjölgar ört síðan. Fyrsta árið eftir gildistöku laganna bárust TR 22 umsóknir en 44 árið 2002.

"Yfirleitt líður þó nokkur tími frá tjónsatviki þar til sótt er um bætur," segir Una Björk. "Oftast er um að ræða nokkra mánuði og upp í eitt til tvö ár. Reynslan sýnir að sjúklingatryggingamál eru þung í vöfum og alla jafna líða nokkrir mánuðir frá því umsókn berst og þar til ákvörðun um bótaskyldu liggur fyrir. Gagnaöflun er tímafrek og niðurstaða fæst ekki nema með samvinnu margra. Fyrstu árin voru því árlega teknar færri ákvarðanir um bótaskyldu en fjöldi umsókna sem barst. Það breyttist mikið árið 2004 og þá voru teknar fleiri ákvarðanir um bótaskyldu en umsóknirnar voru á árinu."

Að sögn Unu Bjarkar hefur um helmingur umsókna verið samþykktur. Hún segir að langflest samþykktu málin falli undir tvö ákvæði laganna, annars vegar það ákvæði sem kveður á um að ekki hafi verið staðið eins vel að læknismeðferð og unnt var og hins vegar það ákvæði sem kveður á um fylgikvilla meðferðar sem ekki hefði verið hægt að komast hjá en ósanngjarnt þyki að sjúklingur beri bótalaust. "Af þeim málum sem samþykkt voru bótaskyld samkvæmt lögunum vörðuðu flest bæklunarskurðlækningar, skurðlækningar og kvensjúkdóma og fæðingarhjálp," segir Una Björk.

Bótagreiðslur námu á síðasta ári rúmlega 37 milljónum króna en árið áður voru greiðslurnar rúmlega 11 milljónir.