Alls eru 76,3% landsmanna frekar eða mjög fylgjandi því að ríkið greiði styrki til íslensks landbúnaðar.

Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR sem kannaði hversu fylgjandi eða andvígt fólk væri gagnvart því að ríkið greiddi styrki til íslensks landbúnaðar.

Af þeim sem tóku afstöðu voru 76,3% sem sögðust frekar eða mjög fylgjandi styrkjum til íslensks landbúnaðar. Skipt eftir einstökum svörum voru 5,1% mjög andvíg, 18,6% sögðust frekar andvíg, 48,5% sögðust frekar fylgjandi og 27,8% sögðust mjög fylgjandi því að ríkið greiddi styrki til íslensks landbúnaðar.

Fram kemur að nokkur munur reyndist vera á afstöðu svarenda eftir búsetu. Þannig sögðust 71% íbúa höfuðborgarsvæðisins vera frekar eða mjög fylgjandi styrkjum til íslensks landbúnaðar en á landsbyggðinni var stuðningurinn 84,4%.

Þá voru 15,6% íbúa landsbyggðarinnar mjög eða frekar andvíg styrkjum til íslensks landbúnaðar á meðan 29% íbúa höfuðborgarsvæðisins voru því mjög eða frekar andvíg.

Athygli vekur að mest var andstaðan hjá þeim sem hafa yfir 800 þúsund krónur á mánuði í tekjur, eða um 33,% þeirra voru andvígir því að greiða styrki til landbúnaðar. Þegar horft er til tekjudreifingar er minnsta andstaðan hjá þeim sem eru með tekjur undir 400 þúsund og enn minni hjá þeim sem eru undir 250 þúsund á mánuði.

Sjá könnun MMR í heild sinni.