Ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2013 var lagður fram í borgarstjórn í dag. Afgangur af rekstri A og B hluta nemur tæpum 8.4 milljörðum króna.

„Niðurstaðan er mikil gleðitíðindi fyrir borgarbúa og sýnir svo ekki verður um villst að reksturinn hefur verið í góðum höndum á kjörtímabilinu. Við skilum góðu búi enda höfum við snúið dæminu við hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Við höfum stundað ábyrga fjármálastjórn á öllum sviðum og haldið uppi verklegum framkvæmdum í borginni sem koma öllum til góða. Það er mikilvægt að svo verði áfram,“ segir Jón Gnarr borgarstjóri í tilkynningu.

Áætlun gerði ráð fyrir að afgangur af rekstri A og B hluta yrði um 7.7 milljarðar króna. Rekstrarniðurstaðan er því 711 m.kr. betri en gert var ráð fyrir.  Helstu ástæður má rekja annars vegar til gjaldfærslu lífeyrisskuldbindinga hjá A-hluta og hins vegar til áhrifa fjármagnsgjalda hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Þar vegur þyngst gengismunur og verðmæti innbyggðra afleiða.  Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði var jákvæð um tæpa 23.6 mkr sem er rúmum 4 milljörðum króna betri niðurstaða en áætlun gerði ráð fyrir. Niðurstaðan sýnir að rekstur samstæðunnar er að styrkjast umtalsvert.

Rekstrarniðurstaða A-hluta var jákvæð um rúma 3 milljarða króna, en undir hann heyrir allur almennur rekstur og lífeyrisskuldbindingar borgarinnar. Áætlanir gerðu ráð fyrir að niðurstaðan yrði jákvæð um 304 mkr á árinu og er niðurstaðan því enn betri en gert var ráð fyrir, sem nemur rúmum  2.7 milljörðum króna. Gjaldfærsla vegna lífeyrisskuldbindinga veldur þar mestu en hún nam 159 mkr en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir 2.6 milljörðum króna.  Skýringin á því að gjaldfærsla vegna lífeyrisskuldbindingar er miklu lægri en gert var ráð var fyrir gert liggur í því að ávöxtunarkrafa á skuldabréfaeign Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar vegna sölu á hlut borgarinnar í Landsvirkjun hækkaði mikið á síðasta ári.

Sé litið framhjá gjaldfærslu lífeyrisskuldbindinga er afkoma A-hluta í heild 263 mkr betri en áætlanir gerðu ráð fyrir. „Þetta er mikilvægur áfangi eftir erfið ár því allir hlutar rekstrarins skila jákvæðri niðurstöðu og öll helstu fyrirtæki í eigu borgarinnar. Allar áætlanir hafa staðist og raunar vel það. Það segir sína sögu að aldrei í sögu borgarinnar hafa skuldir  verið lækkaðar jafn mikið á einu ári, eins og á síðasta ári þegar skuldirnar lækkuðu um 35 milljarða króna,“  segir Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs.