Gengi hlutabréfa fasteignafélagsins Regins hækkaði um 3,36% í Kauphöllinni í dag. Velta með hlutabréf félagsins nam rúmum 816 milljónum króna. Eins og greint var frá á vb.is í morgun keypti sjóðastýringarfyrirtækið Stefnir, dótturfélag Arion banka, rúmlega 40 milljón hlutabréf Regins í utanþingsviðskiptum upp á rúman hálfan milljarð króna. Ekki liggja fyrir upplýsingar um það af hverjum Stefnir keypti hlutabréfin.

Á sama tíma hækkaði gengi bréfa Icelandair Group um 1,63% í veltu upp á 324 milljónir króna.

Á sama tíma og gengi hlutabréfa tveggja félaga hækkaði á markaði lækkaði gengi bréfa Haga um 0,79% og Marel um 0,67%

Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,12% og endaði í rúmum 1.136 stigum. Hún hefur aldrei verið hærri. Veltan á hlutabréfamarkaði nam tæpum 3 milljörðum króna. Mesta veltan var með hlutabréf Regins og Haga eða fyrir samtals 1,4 milljarða króna.