Í nýútgefnum Þjóðarpúls Gallup var eftirfarandi spurning lögð fram: Eftirfarandi eru í framboði til embættis forseta Íslands. Hvorn þeirra myndir þú kjósa ef kosið yrði til forseta í dag? En hvorn frambjóðandann telur þú líklegra að þú myndir kjósa ef kosið yrði til forseta í dag?

Rúmlega níu af hverjum tíu sem tóku afstöðu kysu Guðna Th. Jóhannesson ef gengið yrði til forsetakosninga í dag, á meðan einn af hverjum tíu kysu Guðmund Franklín Jónsson. Fleiri konur en karlar kysu Guðna, eða nær 95% kvenna á móti rúmlega 86% karla.

Fleiri kysu Guðna meðal þeirra sem hafa lokið háskólaprófi en þeirra sem hafa minni menntun að baki. Mikill munur er eftir því hvað fólk kysi ef kosið yrði til Alþingis í dag, en stuðningur við Guðna er langminnstur meðal þeirra sem kysu Miðflokkinn.

Rúmlega 45% þeirra sem kysu Miðflokkinn segjast myndu kjósa Guðna. 90-100% þeirra sem kysu Sjálfstæðisflokkinn, Samfylkinguna, Vinstri græna, Pírata, Viðreisn eða Framsóknarflokkinn myndu kjósa Guðna. Nær 93% þeirra sem styðja ríkisstjórnina kysu Guðna á móti rúmlega 83% þeirra sem styðja hana ekki.

Könnunin var lögð fram dagana 29. maí til 3. júní 2020. Heildarúrtaksstærð varð 1.108 og þátttökuhlutfall var 54,7%. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.