365 miðlar hf., sem eiga helmingshlut í Torgi ehf. - útgefanda Fréttablaðsins, skiluðu 1.027 milljóna króna tapi á síðasta ári. Greint er frá þessu í Fréttablaðinu og segir þar að tapið skýrist að stærstum hluta af einskiptisleiðum sem tengjast aflagðri starfsemi félagsins í kjölfar sölu á ljósvaka-, fjölmiðla-, og fjarskiptarekstri, eða 591 milljón króna.

Þá hafi álagður og reiknaður tekjuskattur vegna fyrri ára numið 537 milljónum króna og gangvirðisleiðrétting á hlutabréfum 294 milljónum króna. Þessir liðir sem taldir hafa verið upp hafi því haft neikvæð áhrif á afkomu síðasta árs að fjárhæð 885 milljónir króna.

Eigið fé 365 nam 1.409 milljónum í lok árs 2018 og var eiginfjárhlutfall 41%. Þá segir jafnframt í fréttinni að ákveðið hafi verið að auka hlutafé um 1,2 milljarða á þessu ári.

„Afkoma ársins 2018, sjóðstreymi og breytingar á efnahagsreikningi litast mjög af eftirfylgni sölu á rekstri 365 í árslok 2017 ásamt áhrifum af því að ágreiningsmál við skattayfirvöld hafa verið til lykta leidd. Eftir þetta tiltektarár hjá félaginu og hlutafjáraukningu hefur eignasafn og fjárhagur 365 styrkst til muna og mun félagið halda áfram að nýta þau tækifæri sem gefast og vera virkur þátttakandi í fjárfestingarverkefnum,“ hefur Fréttablaðið eftir Ingibjörgu S. Pálmadóttur, forstjóra og aðaleiganda 365 miðla.