Á síðasta ári var fjöldi erlendra ríkisborgara sem starfar hér á landi 9.010 sem samsvarar til þess að 5,5% af heildarfjölda starfandi manna á landinu. Þetta kemur fram í Hagtíðindum Hagstofunnar.

Samkvæmt staðgreiðsluskrá Hagstofu Íslands hefur erlendum starfsmönnum fjölgaði um 5.610 á íslenskum vinnumarkaði á árunum 1998 til 2005. Árið 1998 voru þeir að meðaltali 3.400 en voru orðnir 9.010 árið 2005. Hlutfall starfandi með erlendan ríkisborgararétt hefur aukist jafnt og þétt úr 2,3% árið 1998 í 5,5% árið 2005.

Árið 2005 voru fleiri starfandi karlar en konur með erlent ríksfang en konurnar voru fleiri í upphafi tímabilsins. Árið 2005 voru 5.350 karlar en 3.650 konur en árið 1998 voru 1.530 karlar og 1.870 konur.

Árið 2005 störfuðu 4.420 erlendir ríkisborgarar á höfuðborgarsvæðinu en 4.340 utan þess. Utan höfuðborgarsvæðisins störfuðu flestir erlendir ríkisborgarar á Austurlandi eða 1.790.
Af öllum starfandi árið 2005 störfuðu flestir við þjónustugreinar (72%), því næst iðngreinar (23%) og fæstir við frumvinnslugreinar (5%). Þegar aðeins er litið til þeirra sem hafa erlent ríkisfang þá störfuðu nær jafnmargir í þjónustugreinum (48%) og iðngreinum (47%) en fæstir í frumvinnslugreinum (5%).

Ekki kemur á óvart að í úttekt Hagstofunnar kemur einnig fram að flestir erlendir ríkisborgarar sem starfa utan höfuðborgarsvæðisins starfa á Austurlandi við við mannvirkjagerð eða alls 1.170 á síðasta ári. Til samanburðar störfuðu aðeins 10 erlendir ríkisborgarar við mannvirkjagerð á Austurlandi árið 1998.

Pólverjar eru fjölmennastir í hópi erlendra ríkisborgara starfandi á Íslandi en þeir eru alls 1.970 en næst á eftir koma danskir, filippseyskir, portúgalskir og þýskir ríkisborgarar eða rúmlega 500 frá hverju landi.