Fræðslufundur Ungra fjárfesta um skynsamleg fyrstu skref í fjárfestingum mun fara fram á hádegi næsta mið­ vikudag í HR.

Þar mun Björn Berg Gunnarsson, fræðslustjóri VÍB, fara yfir fyrstu skrefin fyrir væntanlega fjárfesta og svara spurningum þegar erindinu lýkur. „Við erum himinlifandi með þær frábæru viðtökur sem viðburðurinn hefur fengið. Einn tilgangur félagsins er að vekja áhuga ungs fólks á fjármálum, fjárfestingum og sparnaði og það er mjög ánægjulegt að sjá hversu mikill áhuginn er. Vonandi verður þetta til þess að fleira ungt fólk byrjar að fjárfesta og hugsa um þessi málefni. Ég er ekki í nokkrum vafa um að fundurinn mun gagnast þeim sem hann sækja en hann er sérstaklega sniðinn að þeim sem hafa áhuga á fjárfestingum en vita ekki hvert þeir eiga að snúa sér,“ segir Alexander Jensen Hjálmarsson, formaður Ungra fjárfesta.

Þess má geta að stefnt er að því að taka fundinn upp og setja á netið að honum loknum. Þá verður fundurinn endurtekinn í HÍ snemma í haust eftir að kennsla hefst þar.