Iðnaðar- og viðskiptaráðherra undirritaði í dag reglugerð um úthlutun styrkja upp á samtals 380 milljónir króna úr framkvæmdasjóði ferðamannastaða til uppbyggingar og verndaraðgerða á ferðamannastöðum nú í sumar skv. ákvörðun ríkisstjórnar í síðustu viku.

Styrkjum til 88 verkefna um land allt er úthlutað þar sem þörf er talin brýn vegna verndunar eða öryggissjónarmiða og þola ekki bið. Þetta kemur fram í frétt á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins . Hæstu styrki hlutu Vatnajökulsþjóðgarður upp á 69.250.000 kr og því næst Gullfoss upp á 23 milljónir króna.

Framkvæmdir verða á gönguleiðum/göngustígum sem liggja undir skemmdum. Víða þarf að koma upp öryggisgrindverkum og pöllum við fossa og hveri til að tryggja öryggi ferðamanna, en talið er að slysahættan sé veruleg á mörgum þessara staða.