Rétt rúmur meirihluti landsmanna er andvígur sölu á bjór og léttvíni í matvöruverslunum, samkvæmt nýrri könnun Fréttablaðsins . Þannig voru 55% þeirra sem tóku afstöðu á móti því að heimila söluna en 45% voru því hlynnt.

„Þetta er í raun jákvæðari niðurstaða og það er eðlilegt að hún þróist í þá átt,“ segir Vilhjálmur Árnason, þingmaður og flutningsmaður frumvarpsins, í samtali við Fréttablaðið. Hann segir um grundvallarbreytingu að ræða sem muni alltaf verða umdeild.

Ef niðurstöður könnunarinnar eru skoðaðar eftir hópum kemur í ljós að hlutföllin eru jöfn hjá körlum. Helmingur þeirra er fylgjandi sölu bjórs og léttvíns í matvöruverslunum, en helmingur á móti. Hins vegar er 61% kvenna andvígt sölunni en 39% fylgjandi.