Rúmur helmingur útlána Arion banka flokkast sem slæm lán (non-performing loans), en það eru lán sem ekki hefur verið greitt af í að minnsta kosti 90 daga.

Lán til fyrirtækja og eignarhaldsfélaga í endurskipulagningarferli falla einnig í þennan flokk. Hlutfall slíkra lána hjá bankanum er nú 52% eða var 14% í árslok 2008 og fjöldi þeirra hefur því tæplega fjórfaldast á einu ári. Heildarafskriftir á markaðsvirði eigna bankans vegna varúðarniðurfærslna af slæmu lánunum nema 28,7 milljörðum króna. Þetta kemur fram í ársreikningi Arion banka.

Vanskil almennt að aukast

Finnur Sveinbjörnsson, bankastjóri Arion banka, segir helstu ástæðu þess að rúmur helmingur lána bankans hafi verið í vanskilum í meira en 90 daga vera þá að stór hluti lána hafi verið í frystingu samkvæmt opinberum tilmælum framan af ári.

Auk þess hafi Arion yfirtekið stór lán frá Kaupþingi til ýmissa eignarhaldsfélaga sem séu lítils, eða einskis virði í dag. „Mörg þessara lána hafa síðan smátt og smátt verið að þiðna, en við vitum ekki hvort þau verði greidd eða ekki, enda hafa vanskil almennt verið að aukast í þjóðfélaginu. Það útskýrir hluta af þessu. Við vitum ekki hvernig stór hluti lántakenda okkar muni hegða sér þegar hann kemur úr frystingu.“

____________________________

Ítarlega er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .