Runólfur Ágústsson, lögfræðingur, hefur verið skipaður í embætti umboðsmanns skuldara. Hann tekur til starfa 1. ágúst næstkomandi. Níu sóttust eftir embættinu. Í tilkynningu um ráðningu Runólfs í starfið segir að niðurstaða hæfnismats hafi verið sú að Runólfur sé hæfastur.

Runólfur er lögfræðingur að mennt. Hann var aðstoðarrektor við Samvinnuháskólann á Bifröst 1998-1999 og rektor Háskólans á Bifröst frá 1999-2006. Árið 2007 var hann ráðinn framkvæmdarstjóri Keilis og gegndi því starfi til 2009. Síðan þá hefur hann verið stjórnarformaður Vinnumálastofnunar og einnig Atvinnuleysistryggingasjóðs.

Embætti umboðsmanns skuldara er ríkisstofnun sem hefur það hlutverk að gæta hagsmuna og réttinda skuldara. Embættið mun annast fjármálarágjöf fyrir einstaklinga, en til þessa hefur Ráðgjafastofa um fjármál heimilanna sinnt starfseminni.