„No komment. Umræðu um málið af minni hálfu er lokið,“ segir Runólfur Ágústsson, lögfræðingur og fyrrverandi rektor Háskólans á Bifröst. Hann var í Hæstarétti í gær dæmdur til að endurgreiða SPB hf (áður Icebank og Sparisjóðabankanum) 79 milljónir króna auk vaxta. Hann vildi ekki tjá sig um það hvernig hann ætli að greiða upphæðina þegar VB.is spurði hann að því og vísaði í pistil sem hann skrifaði um málið á vefmiðlinum Eyjan.

Runólfur seldi í apríl árið 2008 Icebank Fjárfestingarfélagið Teig ehf sem hélt utan um fjárfestingar hans á Keflavíkurflugvelli fyrir rúmar 350 milljónir króna. Hluti kaupverðsins var greiddu með hlutafé í bankanum og annar hluti notaði Runólfur til að greiða skuldir sem til voru komnar vegna fjárfestingarinnar.

Í pistli Runólfs sem hann vísar til í samtali við VB.is kemur fram að af því sem eftir stóð hafi hann greitt skatta sem tóku mið af heildargreiðslunni og hann því ekki riðið feitum hesti frá viðskiptunum. Slitastjórn SPB krafist riftunar á greiðslum vegna kaupa bankans á félaginu og taldið endurgjaldið hafa verið hærra en sem nam verðmæti þess. Því hafi greiðslur umfram verðmæti falið í sér gjöf samkvæmt skilningi 131. gr. gjaldþrotaskiptalaga. Af þeim sökum dæmdi Hæstiréttur Runólf til að endurgreiða féð.

Segir of mikla peninga ekki gleðja

Í pistli sínum skrifar Runólfur þessi viðskipti ekki hafa orðið sér til gæfu. Hann skrifar:

„Þau voru gerð í anda græðgi og auðsöfnunar áranna fyrir hrun og af þátttöku minni í þeim dansi er ég ekki stoltur. Nú stend ég á þeim tímamótum að gera þessi viðskipti upp og byrja svo frá grunni eftir að hafa tapað aleigunni [...]. Þrátt fyrir allt er ég feginn að endanleg niðurstaða er fengin í þessu dómsmáli sem hvílt hefur á mér og mínum eins og mara undanfarin ári. Fjárhagslegar eignir eru ekki markmið í sjálfu sér. Það er lærdómur minn af þessu öllu. Að því gefnu að maður geti framfleytt sér og sínum með mannsæmandi hætti, eru peningar bara peningar og magn þeirra umfram þarfir gerir fólk í sjálfur sér hvorki glatt eða hamingjusamt.“