*

sunnudagur, 18. ágúst 2019
Fjölmiðlapistlar 7. júlí 2018 13:43

Ruslflokkun

Brynjar Níelsson, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, vék í vikunni að tilgangi og markmiði fjölmiðla í lýðræðisþjóðfélagi.

Andrés Magnússon
Haraldur Guðjónsson

Brynjar Níelsson, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, vék í vikunni að tilgangi og markmiði fjölmiðla í lýðræðisþjóðfélagi. Hann minnti á að fleiri hefðu völd og áhrif en kjörnir fullrúar, þar á meðal fjölmiðlamenn. Þeir tryðu því að vísu sumir að þeir væru hlutlausir og jafnvel í sérstökum erindagjörðum á vegum almennings og nefndi starfsmenn Ríkisútvarpsins til dæmis. Hið sanna væri þó að flestir stunduðu þeir pólitík af meira kappi en stjórnmálamenn, enda margir hinna síðarnefndu lítið meira en handlangarar umboðslausra embættismanna, sérfræðinga og hagsmunasamtaka.

Þetta var auðvitað merkileg umsögn um stjórnmálamenn hjá þingmanninum, en meiri athygli vöktu þó nótur hans um fjölmiðla. Brynjar ítrekaði að fjölmiðlar væru mikilvægir í frjálsum lýðræðisríkjum til þess að miðla upplýsingum og veita valdhöfum aðhald. Stundum væri kvartað undan máttlitlu stjórnkerfi, en sjálfur teldi hann fjölmiðla veikasta hlekkinn í samfélaginu: "Eiginlega í ruslflokki eins og þeir segja hjá matsfyrirtækjunum."

Þar sem þetta er viðskiptablað er rétt að ítreka að „ruslflokkur“ felur ekki í sér að þar sé rusl, heldur aðeins að þar séu verðbréf, sem ekki eru við hæfi stofnanafjárfesta eins og lífeyrissjóða, þau eru áhættumeiri en öruggari pappírar (og geta jafnframt gefið af sér hærri ávöxtun). En það er ekki eins og sjóðurinn sé í rusli eða sé rusl, eins og fastir lesendur Viðskiptablaðsins vita.

***

Binni átti hins vegar örugglega við annað, en líkt og hann ætlaðist vafalaust til brugðust ýmsir fjölmiðlamenn og pólitískir andstæðingar ókvæða við. Ekki þó allir; sumir voru ánægðir með sinn mann og töldu fjölmiðla illa haldna af pólitískum rétttrúnaði, meðan aðrir töldu miðlana aflóga drógir sem drægju vagn auðvaldsherranna.

Aðrir voru málefnalegri í svörum sínum og bentu á orð Brynjars um aðhaldshlutverk fjölmiðla því til stuðnings. Þeir væru fyrir vikið ávallt í eins konar stjórnarandstöðu og því væri varla skrýtið þó stjórnarþingmaðurinn væri pirraður út í fjölmiðla.  

***

Þetta má allt ræða í löngu máli og hafa misjafnar skoðanir á eftir smekk og stjórnmálaskoðunum. Fjölmiðlarýnir getur hins vegar ekki tekið undir það að íslenskir fjölmiðlar séu almennt og yfirleitt í ruslflokki. Þeir eru vissulega mjög misjafnir, misgóðir við að sinna erindi sínu og erindin svo sem misjöfn líka. En þeir sem lifa eru ljóslega að sinna einhverju nægilega vel til þess að neytendur og/eða auglýsendur veita þeim viðurværi.

Hitt er annað mál, að íslenskir fréttamiðlar eru flestir veikburða og svo hefur verið um töluverða hríð. Það þarf ekki annað en að líta á afkomuna til þess að sjá það, en svo geta menn líka metið það af umfangi og efnistökum í fréttaflutningi. Í heildina má segja að íslenskir fréttamiðlar hafi ekki náð sér vel á strik eftir hrun (Viðskiptablaðið er undantekning, sem sannar regluna!).

Þeir komu flestir mjög skuldugir út úr hruni (jafnvel Ríkisútvarpið fór einhvernveginn á kúpuna án afskipta útrásarvíkinga!) og allir þurftu þeir að skera niður að beini í rekstrinum. Það kom óhjákvæmilega niður á gæðunum þegar segja þurfti upp fjölda manns, oft reynslumiklum (og dýrum) starfsmönnum. Bæði með beinum hætti, þegar meðalaldur á ritstjórnum hríðféll og viðvaningsbragurinn blasti við, en einnig með óbeinum hætti, þegar stofnanaminni minnkaði og nýliðarnir fengu ekki tilsögn hjá reyndara fólki.

Varla þarf heldur að minnast á margvíslegar breytingar á fjölmiðlamarkaði með tilkomu nýrra miðla með óljós viðskiptamódel, en þó að þeir hafi fæstir malað gull þá grófu þeir mjög undan gömlu miðlunum. Það á ekki aðeins við um fréttahlutann, því afþreyingarefni á vegum erlendra netrisa hefur vitaskuld gert innlendum afþreyingarmiðlum erfitt fyrir. Sem auðvitað kemur niður á dýrum fréttastofum fyrr eða síðar

***

Hér hefur áður verið drepið á þennan vanda fjölmiðlunar, sem án vafa er fjölþættur og flókinn, en einfaldast er að benda á að tekjur fjölmiðla hafa ekki aukist á undanförnum árum í takt við efnahagslega velgengni þjóðarinnar að öðru leyti og tölfræði um auglýsingaútgjöld í landinu á þeim tíma segir svipaða sögu. Um margt af því þýðir lítið að fást, fjölmiðlun er í mikilli deiglu um alla veröld og fjölmiðlar á breytingaskeiði, þar sem þeir þurfa að hafa fyrir hlutunum.

Það ýtir undir nýbreytni og ekki er að efa að þeir finna sér stað er fram í sækir, þó leiðin kunni að vera löng og ströng. Stjórnmálamenn eins og Brynjar geta hins vegar hlutast um að létta þeim lífið. Ekki með beinum styrkjum eða annars konar óverðskuldaðri áskrift að fjármunum skattgreiðenda, heldur með því að leggja ekki á þá óhóflegar og ójafnar byrðar líkt og með virðisaukaskattshækkuninni um árið. Án allra vangaveltna um ruslflokka.

***

Jónas Kristjánsson, fyrrverandi ritstjóri, lést í liðinni viku, 78 ára að aldri. Jónas var vafalaust með þekktustu blaðamönnum á Íslandi, hann kom víða við á löngum ferli, fyrst á Tímanum, svo á Vísi, þar til hann stofnaði Dagblaðið sem síðar varð DV. Þar var hann ritstjóri um tveggja áratuga skeið, en átti svo viðkomu á ýmsum miðlum svo sem Fréttablaðinu, Eiðfaxa og aftur á DV, auk kennslu í blaðamennsku. Hann var um tíma formaður Blaðamannafélags Íslands og Íslandsnefndar International Press Institute.

Jónas var glöggur og eftirminnilegur maður, snjall blaðamaður og mjög ritfær, með knappan og beinskeyttan stíl, en gat verið orðhákur og hafði litla þolinmæði fyrir minnimáttar. Sem á ritvellinum voru ófáir.

Helsta afrek hans var vafalaust stofnun Dagblaðsins árið 1975, sem markaði upphaf þess að flokksblöðin lögðust af, á sinn hátt ekki minni vatnaskil á fjölmiðlamarkaði en stofnun Stöðvar 2 árið 1986 eða stofnun Fréttablaðsins 2001.

Fjölmiðlarýnir starfaði lítillega með Jónasi á liðinni öld og ræddi oft við hann um blaðamennsku síðan. Þau samskipti voru öll ánægjuleg og fræðandi, þó skoðanir væru stundum skiptar. Guð blessi minningu hans.