Frétt Seðlabankans frá því í gærmorgun um fjögurra milljarða evra lán frá Rússlandi vakti sem vonlegt var mikla athygli, ekki síst þar sem með fylgdu upplýsingar um hagstæð kjör.

Það var sendiherra Rússlands á Íslandi, Victor I. Tatarintsev, sem tilkynnti formanni bankastjórnar Seðlabankans í gærmorgun að staðfest hefði verið að Rússland myndi veita Íslandi lánafyrirgreiðsluna.

Greint var frá því að lánið myndi verða til 3-4 ára á kjörum sem yrðu á bilinu 30-50 punktum yfir Libor-vöxtum. Greint var frá því að Pútín, forsætisráðherra Rússlands, hefði staðfest þessa ákvörðun.

Í tilkynningunni sagði að forsætisráðherra Íslands hefði hafið athugun á möguleikum á slíkri lánafyrirgreiðslu á miðju sumri og hefur Tryggvi Þór Herbertsson hagfræðingur meðal annars unnið að málinu.

Viðbrögð embættismanna í Rússlandi vöktu athygli því þeir virtust ekki vera með á nótunum. Á blaðamannafundi forsætisráðherra í hádeginu í gær þurfti hann að taka af tvímæli um málið.

_______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .