Óhætt er að segja að andlitið hafi dottið af mörgum þriðjudagsmorguninn 7. október sl. þegar Seðlabanki Íslands sendi frá sér fréttatilkynningu um fjögurra milljarða evra lán frá Rússlandi.

Á þeim tíma var stærsti hluti bankakerfisins íslenska lifandi og margir vonuðst að þetta yrði til bjargar, fáir höfðu áhyggjur af pólistískum hliðum hugsanlegrar lántöku.

Varnarþörf landsins var á efnahagssviðinu eins og utanríkisráðherra dró fram með svo skýrum hætti í þessari viku.

En þó að vonir hafi glæðst um björgun mála þá dugði það ekki til. Landsbankinn og að lokum Kaupþing fylgdu á eftir Glitni inn í myrkviði skilanefndarinnar og hrun íslenska fjármálakerfsins var staðreynd.

Nú, tæplega mánuði seinna eru Íslendingar enn að bíða eftir láni frá Rússlandi og eru skoðanir skiptar sem fyrr. Margt í ferlinu hefur vakið upp spurningar og sem fyrr eru stjórnvöld spör á útskýringar og upplýsingar, svo spör að þegar eftir því var leitað vildi Seðlabankinn eingöngu vísa í fyrri tilkynningar um málið.

Sömu viðbrögð fengust annars staðar og markast umfjöllunin af því að leita varð annarra leiða við að afla upplýsinga.

Það sem brennur helst á mönnum núna er einfaldlega spurningin: Kemur lánið? Og ef svo er ekki, er þá ekki eðlilegt að spyrja; var þetta aldrei í neinni alvöru? Voru kannski báðar þjóðirnar að reyna að nýta sér viðkvæmt pólitískt ástand með mismunandi formerkjum – íslenskir ráðamenn til þess að bjarga þjóðinni frá bráðum efnahagsvanda og Rússar til að reka fleyg í samstarf Nató-ríkja. Eða var þetta bara á viðskiptalegum nótum eins og fulltrúar beggja landanna reyndu svo ákaft að sannfæra almenning um?

Hér á eftir verður reynt að rýna í atburðarásina og velta upp spurningum og vangaveltum sem hafa vaknað.

_______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í Viðskiptablaðinu í dag.

Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .