Aðild Rússlands að Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO) var samþykkt af aðildarríkjum stofnunarinnar á áttunda ráðherrafundi stofnunnarinnar í Genf í gær. Í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu segir að aðild Rússlands marki tímamót í heimsviðskiptum en landið sé mikilvægasta efnahagsveldi heims sem fram til þessa hafi staðið utan hins fjölþjóðlega viðskiptakerfis.

Þá er bent á að viðskipti Íslands og Rússlands byggi á gömlum merg og hafi Ísland einkum flutt út sjávarafurðir til Rússlands. "Heildarútflutningur til Rússlands nam um 11,6 milljörðum króna árið 2010. Í tengslum við aðildarviðræður Rússlands að WTO gerði Ísland samkomulag við Rússland sem tryggði sérstaklega lægri tolla á mikilvægar íslenskar útflutningsvörur frá aðild, svo sem makríl, karfa og síld. Einnig var samið um lægri tolla á nokkrum iðnaðarvörum, meðal annars á lyfjavörum og búnaði og vörum til noktunar í matvælaframleiðslu," segir í tilkynningu utanríkisráðuneytisins.