Rússneska þingið samþykkti í atkvæðagreiðslu í gær að veita þeim sem hafa orðið fyrir refsiaðgerðum Vesturlanda undanfarið bætur. Stjórnarandstaðan á þinginu gagnrýndi málið og segir það tilraun til að kaupa tryggð hinna ríku.

Samkvæmt frumvarpinu sem var samþykkt mega rússnesk stjórnvöld einnig gera rússneskar eignir útlendinga sem hvetja til refsiaðgerða upptækar.

Frumvarpið var fyrst lagt fram í apríl en dregið til baka vegna mikillar gagnrýni. Það var svo lagt fram aftur í september, degi eftir að eigur æskuvinar Pútíns Rússlandsforseta voru gerðar upptækar á Ítalíu.

Frumvarpið var umdeilt og var samþykkt með 233 atkvæðum gegn 202, sem er óvenjulega lítið í rússneska þinginu. Þó þarf að kjósa tvisvar í viðbót um frumvarpið áður en það verður endanlega samþykkt.