Rússar munu bæta 40 langdrægum flugskeytum við kjarnorkuvopnaflota sinn í kjölfar þess að Bandaríkin hafa aukið við hernaðarstyrk sinn innan ríkja Atlantshafsbandalagsins í Austur-Evrópu. BBC News greinir frá þessu.

Þar kemur fram að Vladimir Putin, forseti Rússlands, hafi haldið þessu fram á hergagnasýningu í Rússlandi. Fram kom í máli Pútins að nýju flugskeytin gætu komist framhjá fullkomnustu varnarkerfum heims.

Samband Rússa við vestræn ríki hefur verið stirt að undanförnu vegna ástandsins í Úkraínu, og hafa þau síðarnefndu meðal annars gripið til þeirra ráða að leggja víðtækar viðskiptaþvinganir á Rússland.