Rússneska efnahagsráðuneytið gerir ráð fyrir að landsframleiðsla muni dragast saman um 0,8% á næsta ári vegna lækkandi olíuverðs og vegna viðskiptaþvingana. Er þetta töluverð breyting frá fyrri spá ráðuneytisins sem gerði ráð fyrir hagvexti um 1,2%.

„Núna gerum við ráð fyrir að viðskiptaþvinganirnar munu halda sér út árið 2015,“ sagði Alexei Vedev aðstoðar-efnahagsmálaráðherra Rússlands í tilkynningu frá ráðuneytinu. Þá segir hann að þvinganirnar munu hafa það í för með sér að það þrengi enn frekar að rússneskum fyrirtækjum og auki enn frekar á óstöðugleika.

Í gær féll rúblan um 8,24% gagnvart dollar en það sem af er ári hefur gengi gjaldmiðilsins fallið um 40%. Gengi gjaldmiðilsins hefur ekki lækkað jafn mikið á einum degi frá árinu 1998.

Nánar er fjallað um málið á vef The Guardian .