Heildar greiðslukortavelta í apríl nam rúmum 94,5 milljörðum króna og jókst um 34,8% á milli ára. Kortavelta Íslendinga hér á landi nam tæplega 80,5 milljörðum í apríl og jókst um 19,6% frá fyrra ári. Þetta kemur fram í mánaðarlegri samantekt Rannsóknaseturs verslunarinnar (RSV).

Innlend kortavelta í verslun nam rúmum 42,6 milljörðum sem er rúmlega 7,4% meira en á sama tíma í fyrra. Innlend kortavelta í þjónustu nam rúmum 37,7 milljörðum sem er 37% aukning frá apríl 2021. Heildarvelta í flokknum Ferðaskrifstofur og skipulagðar ferðir fjórfaldaðist á milli ára og var yfir 1,5 milljarðar króna.

Heildarvelta innlendra greiðslukorta í verslunum og þjónustu erlendis rúmlega tvöfaldaðist á milli ára og nam tæpum 18,4 milljörðum í mars sem er meira en í mars 2019.

Nær engir ferðamenn frá Rússlandi

Kortavelta erlendra ferðamanna hérlendis nam rúmum 14 milljörðum í síðasta mánuði og jókst um 1,2% frá því í mars. „Ef vísitala erlendrar kortaveltu er skoðuð má sjá að stutt er í að erlend ferðamanna velta nái því sem eðlilegt þótti fyrir heimsfaraldur,“ segir í samantekt RSV. Hlutfall erlendrar kortaveltu af heildarkortaveltu á Íslandi var 14,9% í apríl samanborið við 18,6% í apríl 2019

Ferðamenn frá Bandaríkjunum eru ábyrgir fyrir 30,9% af allri erlendri kortaveltu hérlendis í apríl. Bretar koma næstir með 12,1% og svo Þjóðverjar með 6,7%.

Fram kemur að velta rússneskra ferðamanna hafi einungis numið 0,1 milljón króna í síðasta mánuði sem er 99% samdráttur frá fyrra ári.