Rússar íhuga nú hvort leggja eigi innflutningsbann á vörur frá Íslandi, Svartfjallalandi, Albaníu, Lichtenstein, Úkraínu og Georgíu vegna þess að löndin hafa stutt við refsiaðgerðir gegn Rússum. Samkvæmt CNN Money hafa Rússar hafið eyðileggingu á innfluttum mat frá flestum Vesturlöndum, til dæmis ost, mjólk, ávöxtum og kjöti.

„Allir sem beita okkur refsiaðgerðum verða að taka afleiðingunum, viðskiptaþvingunum á matvæli," er haft eftir aðstoðarforsætisráðherra Rússlands, Arkady Dvorkovich, á CNN Money.

Allt frá því að innflutningsbann var lagt á mat frá Vesturlöndum hafa rússnesk yfirvöld notað jarðýtur til að eyðileggja matvæli sem hafa verið flutt inn með ólögmætum hætti.

Afleiðingar bannsins hafa orðið til þess að verð á matvælum hefur hækkað um 20% í Rússlandi. Aftur á móti finna helstu viðskiptalönd Rússlands í Evrópu líka til bannsins, en margir Evrópskir bændur hafa flutt talsvert út af vörum til Rússlands. Heildar útflutningsverðmæti frá Evrópusambandinu til Rússlands nam þannig 13 milljörðum dala árið 2013. Evrópusambandið hefur þegar varið 170 milljónum dala til að greiða bændum fyrir að eyðileggja eða gefa uppskeru sína til að halda aftur af verðlækkun.