Í sextán ár hefur verið í gildi innflutningsbann í Rússlandi gagnvart bresku nauta- og lambakjöti. Bannið var sett á árið 1996 í kjölfar þess að sýking greindist í breska kjötinu og bannaði fjöldi landa innflutning á kjötinu. Langt er hins vegar liðið síðan önnur lönd afléttu banninu.

Það var David Cameron, forsætisráðherra Breta, sem tók málið upp við rússnesk yfirvöld i heimsókn sinni til Rússlands á síðasta ári. Sérfræðingar fréttastofu BBC segja að bannið hafi verið viðkvæmur blettur í samskiptum ríkjanna og skipti þessi ákvörðun Rússa því töluverðu máli.