Seðlabanki Rússlands hefur tilkynnt að hann muni hækka stýrivexti úr 10,5% í 17%. BBC News greinir frá málinu.

Rúblan, rússneski gjaldmiðillinn, hefur hríðlækkað í verði á þessu ári eða um 45% frá áramótum. Í byrjun mánaðarins varð hún fyrir metgengislækkun þegar hún lækkaði um meira en 8% á einum degi.

Lækkandi heimsmarkaðsverð á olíu og viðskiptaþvinganir annarra landa gegn Rússlandi hafa áhrif á gengið og hafa jafnframt valdið mikilli verðbólgu í landinu. Seðlabanka Rússlands hefur gengið illa að bæta úr stöðunni en hann hefur einnig keypt rúblur á markaði til þess að vinna gegn falli gjaldmiðilsins.

Þetta er í annað sinn á stuttum tíma sem stýrivextir eru hækkaðir í landinu og hafa þeir nú farið úr 8% í 17% á fáeinum vikum.