Nokkur óróleiki ríkir á rússneskum fjármálamörkuðum eftir að rússneski herinn réðst inn á Krímskaga í Úkraínu um helgina. Micex-hlutabréfavísitalan í kauphöllinni í Moskvu hefur fallið um 10% það sem af er degi. Þá hefur gengið rúblunnar lækkað um 1,4% og hefur gengisvísitala hennar aldrei verið lægri. Rússneski seðlabankinn við gengislækkuninni í dag og hækkaði stýrivexti óvænt um 150 punkta. Stýrivextir fóru við það í 7%.

Bloomberg-fréttaveitan segir líkur á að óróleikinn sé tímabundinn og geti jafnvel komið Rússum vel. Bent er á í umfjöllun Bloomberg að Rússar séu risar á sviði orku- og olíuútflutnings. Óróleiki sem skili sér í verðhækkun á hrávöru og nauðsynjum á borð við eldsneyti komi þeim því vel og geti vel farið að Rússar græði þótt þeir hafi átt upptökin á óróleikanum.