Gasverð í Evrópu hækkaði um nærri 18% í morgun eftir að rússneski gasframleiðandinn Gazprom dró úr væntingum um aukið framboð á næstu mánuðum, þrátt fyrir að Vladímír Pútín Rússlandsforseti hafi gefið annað í skyn. Financial Times greinir frá.

Ekki var að sjá merki um aukið framboð á útboði fyrir flutningsgetu gasleiðsla, sem margir fjárfestar fylgdust með vegna stöðunnar á orkumörkuðum. Hvorki var að finna aukningu frá Rússlandi, hvort sem horft sé til leiðslur í gegnum Úkraínu eða Póllandi.

Vísitala fyrir gasverð í Evrópu hækkaði um 17,7% í morgun og verð á samningum fyrir afhendingu í nóvember fór upp í 104 evrur á megavattstund. Sambærilegir samningar í Bretlandi hækkuðu um 15%.

Pútín og embættismenn í Kremlin hafa ýjað að því síðustu vikurnar að aukið gas verður flutt til Evrópu sem kljáir nú við methækkanir á gasverði. Rússland hefur verið sakað um að halda að sér framboði til þess að bæta samningsstöðu sína og fá þannig Nord Stream 2 gasleiðsluna, sem sneiðir fram hjá Úkraínu og flytur gas beint til Þýskalands í gegnum Eystrasaltshafið, hraðar í notkun.

Pútín hafnaði þessum ásökunum og hélt því fram að Gazprom hafi þegar afhent meira til viðskiptavina innan Evrópu heldur en kveðið var á um í samningum.