Rússar munu halda áfram að þróa eldflaugar sem borið geta kjarnorkusprengjur þrátt fyrir afvopnunarviðræður við Bandaríkjamenn. Í sjónvarpsviðtali sem greint er frá í BBC segir Dmitry Medvedev forseti Rússlands að það verði að sjálfsögðu haldið áfram að þróa ný kerfi, bæði hvað varðar eldflaugar og færanlega skotpalla. "Það sama er stundað kerfisbundið um allan heim." segir Medvedev.

Enn sem komið er hefur Rússum og Bandaríkjamönnum ekki tekist að búa til grunn að nýju afvopnunarsamkomulagi sem getur tekið við af Start-1 samningnum. Hann leiddi til mikils niðurskurðar í kjarnorkuvopnabúrum þjóðanna, en samningurinn rann út  5. desember. Hefur Reykjavík sem kunnugt er m.a. verið nefnd sem hugsanlegur fundarstaður vegna undirbúnings nýs samnings. Samkvæmt samningsdrögum frá því í júlí hefur verið rætt um að skera niður um 1.700 kjarnaodda hjá báðum þjóðum innan sjö ára. Þrátt fyrir slíkan niðurskurð ættu báðar þjóðir nægar byrgðir kjarnorkuvopna til að sprengja heimsbyggðina í tætlur mörgum sinnum.

Í Ria Novosti er greint frá því að Rússar hafi gert árangursríkar prófanir á langdrægum SS-18 eldflaugum nú nýverið. Þannig var eldflaug af gerðinni RS-20 Voyevoda skotið frá Orenburg í Mið-Rússlandi og hæfði skotmark sitt á Kamchatka austast í Rússlandi.