Rússneskir hermenn og hermenn hallir undir stjórnvöld í Rússlandi hertóku höfuðstöðvar Úkraínuhers í Sevastopol á Krímskaga í Úkraínu í dag. Í gær undirritaði Vladimír Pútín, forseti Rússlands, samkomulag þess efnis að Krímskagi heyrði til Rússlands. Þetta er fyrsta skiptið sem eitt Evrópuríki hefur tekið yfir hluta annars Evrópuríkis síðan seinni heimsstyrjöldinni lauk.

Í breska dagblaðinu Financial Times segir að þeir Ihor Tenjúk, varnarmálaráðherra Úkraínu, og Vítaly Jarema, aðstoðarforsætisráðherra landsins, hafi ætlað að fara til Krímskaga í dag, reyna að lægja öldurnar þar og koma í veg fyrir að vopnuð átök brjótist út við herstöðina í Sevastopol. Sergei Aksíonov, sem fer með mál Krímskaga í umboði Rússa, segir þá heins vegar ekki velkomna.