Vladimír Pútín, forseti Rússlands, segir Rússa hafa vilja hjálpa Úkraínumönnum sem glími við fjárþurrð. Samþykkt var á þriðjudag að Rússar láni Úkraínumönnum jafnvirði 15 milljarða evra auk þess sem þeim standi tímabundið til boða að kaupa gas á lægra verði en gengur og gerist.

„Þetta eru tímabundnar aðgerðir en við vonumst til að langtímalausnir finnist,“ sagði Pútín á blaðamannafundi í dag og líkti Rússum og Úkraínumönnum við bræður. Breska dagblaðið Financial Times átti fulltrúa á fundinum og fjallar um málið. Blaðið segir stjórnarandstæðinga í Úkraínu mótmæla lánveitingunni.

Blaðið segir jafnframt lánveitinguna þvert á væntingar en hafi verið gert ráð fyrir að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Evrópusambandið myndu veita stjórnvöldum í Úkraínu hjálparhönd í stað Rússa.

Stjórnvöld í Úkraínu ákváðu í nóvember síðastliðnum að hætta við að rita undir samning við Evrópusambandið. Í kjölfarið brutust út mikil mótmæli í Kiev sem hafa varað nánast daglega.