Rússneska ríkisorkufyrirtækið Gazprom hefur hótað því að hætta afhendingu á gasi til Úkraínu standi úkraínsk stjórnvöld ekki skil á greiðslum til fyrirtækisins. Í frétt AP er haft eftir talsmanni Gazprom að berist ekki greiðslur frá Kiev geti fyrirtækið ekki haldið áfram að afhenda gasið. Hann gaf ekki upp hversu háa greiðslu fyrirtækið vildi fá, en í fréttinni segir að hugsanlega verði skrúfað fyrir gasið fyrir helgi.

Þrátt fyrir þessa hótun ætla orkumálaráðherrar Rússlands og Úkraínu að funda í Brussel á mánudag og þykir það benda til þess að ólíklegt sé að staðið verði við hótunina, a.m.k. þar til eftir fundinn.

Deilt hefur verið um verð á gasinu og skuldir Úkraínu við Gazprom og eru áhyggjur uppi um að deilan geti haft áhrif á afhendingu á rússnesku gasi til annarra Evrópuríkja. Í október náðist samkomulag sem fól í sér að Úkraínumenn þyrftu að greiða fyrir fram fyrir gasið, en vegna þess hve fjárhagur úkraínska ríkisins stendur veikum fótum hefur því reynst erfitt að standa í skilum.

Fundurinn á mánudag er haldinn að undirlagi Evrópusambandsins og er haft eftir talsmanni framkvæmdastjórnar ESB að vilji sé þar til að finna lausn á deilunni.