Pólland og Tékkland eiga það á hættu að rússneskum eldflaugum verði beint að þeim ef þarlend stjórnvöld ákveða að leyfa Bandaríkjastjórn að koma fyrir eldflaugavarnarkerfi sínu í ríkjunum tveimur, sagði Nikolai Solovtsov, yfirmaður eldflaugasveita rússneska hersins í gær.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur sagt að hann treysti ekki fullyrðingum Bandaríkjamanna að eldflaugavarnarkerfinu sé aðeins ætlað verjast ógnum frá ríkjum í Mið-Austurlöndum eins og Íran, heldur hefur hann hótað því að Rússar muni bregðast við með gagnaðgerðum ef af áformum Bandaríkjanna verður.

Solovtsov sagði að uppsetning á eldflaugavarnarkerfi Bandaríkjanna við landamæri Rússlands myndi raska hernaðarvaldajafnvægi á svæðinu og væri bein ógnun við öryggishagsmuni landsins. Rússar hafa einnig hótað því að segja upp samningnum um meðaldrægar kjarnorkuflaugar sem þeir gerðu við Bandaríkin árið 1987.